Handbolti

Þórir sáttur með eftirmanninn: „Hann er sá rétti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gustav Gjekstad á blaðamannafundinum þar sem hann var kynntur sem næsti þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.
Ole Gustav Gjekstad á blaðamannafundinum þar sem hann var kynntur sem næsti þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. epa/CORNELIUS POPPE

Ole Gustav Gjekstad fær það erfiða verkefni að fylla skarð Þóris Hergeirssonar þegar hann hættir sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta eftir EM í desember. Selfyssingurinn er handviss um að norska handknattleikssambandið hafi veðjað á réttan hest.

Í gær var tilkynnt að Gjekstad myndi taka við norska liðinu af Þóri í lok árs. „Þetta eru stórir skór að fylla í. Þórir hefur skilað stórkostlegu starfi yfir langan tíma,“ sagði Gjekstad eftir að tilkynnt var um ráðningu hans.

Skórnir eru svo sannarlega stórir enda hefur Þórir unnið til tíu gullverðlauna á fimmtán árum sem þjálfari norska liðsins. En sjálfur er Þórir handviss um að Gjekstad muni gera góða hluti eftir að hann tekur við af honum. 

„Þetta er mjög góður kostur. Hann er rétti maðurinn,“ sagði Þórir við VG. 

„Hann er mjög hæfur vegna reynsla sinnar og ferils í handboltanum. Þetta er mjög góður kostur fyrir leikmennina, liðið og norska handknattleikssambandið. Ég er ánægður að hann ákvað að takast á við þetta.“

Samningur Gjekstads við norska handknattleikssambandið gildir til 2029. Hann stýrir danska liðinu Odense Håndbold út þetta tímabil og stýrir því samhliða norska liðinu frá því eftir EM. Gjekstad hættir svo hjá Odense Håndbold í sumar.

Þórir segist hafa rætt við Gjekstad á meðan ráðningarferlinu stóð.

„Við ræddum saman þegar ég ákvað að hætta um áramótin. Ég hef alltaf talið hann hæfan,“ sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×