Fótbolti

Í tíu leikja bann fyrir „Jackie Chan“ um­mælin

Sindri Sverrisson skrifar
Marco Curto líkti Hwang Hee-Chan við kvikmyndastjörnuna Jackie Chan og er kominn í tíu leikja bann.
Marco Curto líkti Hwang Hee-Chan við kvikmyndastjörnuna Jackie Chan og er kominn í tíu leikja bann. Samsett/Getty

Ítalski varnarmaðurinn Marco Curto hefur verið úrskurðaður í tíu leikja bann frá fótbolta vegna kynþáttaníðs í garð Suður-Kóreumannsins Hwang Hee-Chan, sóknarmanns Úlfanna á Englandi.

Curto er leikmaður Como á Ítalíu en hefur í haust spilað sem lánsmaður hjá Cesena í ítölsku B-deildinni.

Nú þarf hann að sitja af sér tíu leikja bann vegna hegðunar sinnar í æfingaleik með Como í sumar, gegn Úlfunum.

Marco Curto spilar sem lánsmaður með Cesena í vetur en þarf núna að sitja af sér tíu leikja bann.Getty

Como sendi frá sér yfirlýsingu í sumar þar sem félagið gerði lítið úr atvikinu. Ítalirnir sökuðu Úlfana um að gera úlfalda úr mýflugu en viðurkenndu að leikmaður þeirra hefði kallað Hwang „Jackie Chan“. Kvikmyndastjarnan er fædd í Hong Kong en Hwang, sem er jafnan kallaður Channy, er eins og fyrr segir frá Suður-Kóreu.

„Hunsaðu hann. Hann heldur að hann sé Jackie Chan,“ á Curto að hafa sagt við samherja sinn, samkvæmt yfirlýsingu Como eftir leikinn í sumar.

Daniel Podence, liðsfélagi Hwang, brást reiður við þessu og fékk rautt spjald fyrir að kýla í leikmann Como.

FIFA hefur nú úrskurðað Curto í tíu leikja bann og hann þarf auk þess að sinna samfélagsþjónustu og sækja námskeið til að afla sér þekkingar.

„Við fögnum ákvörðun FIFA um að setja Marco Curto í bann fyrir að mismuna leikmanni í vináttuleik okkar við Como,“ sagði Matt Wild, yfirmaður fótboltamála hjá Úlfunum, og bætti við að bannið sendi skýr skilaboð um að kynþáttaníð væri ekki liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×