Um allt má deila og þar með talið margt í þessari staðhæfingu. Ekki er vitað til þess að Icelandair sé, líkt og Reykjavíkurborg, að gefa út skuldabréf á markaði og fullyrðingar um að flugfélagið hafi farið í greiðsluþrot á tíu ára fresti standast tæplega sögulega skoðun.
Ráðgjafann rekur heldur ekki minni til viðlíka ummæla stjórnmálamanns um fyrirtæki síðan Davíð Oddsson og Baugsmálin voru og hétu. Hvers vegna í ósköpunum ákvað borgarstjóri að draga Icelandair inn í umræðuna með þessum hætti?
Sennilega er það reynsluleysi enda á Einar engan bakgrunn á fjármálamarkaði eða af rekstri almennt. Vonandi man hann þó næst að það er ábyrgðarhluti að tjá sig um þessum hætti um fyrirtæki – hvað þá stórt skráð félag þar sem umræðan getur haft mikil áhrif á hlutabréfaverð frá degi til dags eins og þekkt er.
Ekki er vitað til þess að Icelandair sé, líkt og Reykjavíkurborg, að gefa út skuldabréf á markaði og fullyrðingar um að flugfélagið hafi farið í greiðsluþrot á tíu ára fresti standast tæplega sögulega skoðun.
Nær væri að Einar hugaði að því hvers vegna Icelandair ákvað fyrir nokkrum árum að flytja höfuðstöðvar sínar úr borginni í nágrannasveitarfélagið Hafnarfjörð. Einn af mörgum atvinnurekendum sem flúið hefur vinstri meirihlutann í Reykjavík á undanförnum árum. Kannski að betri rekstur, lægri álögur og minni froða geti laðað fyrirtæki eins og Icelandair aftur til höfuðborgarinnar?
Hingað og ekki lengra
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrum þingflokksformaður, ritaði athyglisverða grein í Morgunblaðið í vikunni. Í greininni fjallaði Óli Björn um framkomu Vinstri grænna gagnvart samstarfsflokkum í ríkisstjórn. Hann sagði langlundargeð sitt þrotið og ekki lengur unnt að réttlæta samstarf við Vinstri græn í ríkisstjórn.
“Það þarf ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Vinstri grænir undir forystu eins reyndasta og, að því er ég hélt, eins klókasta stjórnmálamanns samtímans hafa í raun bundið enda á stjórnarsamstarfið. Ég efast ekki um að Vinstri grænir trúi því og treysti að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn láti það yfir sig ganga að minnsti flokkurinn taki þingrofsheimildina af forsætisráðherra og setji samráðherrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum”, ritaði Óli Björn í grein sinni og vísaði þar meðal annars til ályktunar nýafstaðins landsfundar VG um að rjúfa beri þing og boða til kosninga í vor.
Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að rísa upp úr öskunni þarf að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu án tafar. Fyrsta verk verði að leita tækifæra til ríkisstjórnarmyndunar á hægri væng stjórnmálanna.
Vinstri græn fóru um víðan völl í ályktun sinni og sendu samstarfsflokkum í ríkisstjórn kaldar kveðjur. Var látið að því liggja að Sjálfstæðisflokkur þjónaði sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum og ýtti undir útlendingaandúð. Þá voru dregin fram í sviðsljósið úrelt slagorð um auðstéttina og fjármagnsöflin. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sakaðir um undirróður vegna frumvarps um að lækka framlög ríkisins til stjórnmálaflokka. Um þetta fjallaði Óli Björn jafnframt í grein sinni.
Ráðgjafinn telur ríkisstjórnarsamstarfið fullreynt. Fullkominn trúnaðarbrestur virðist uppi innan „samstarfsins“. Málamiðlanir frá hægri til vinstri reynast samfélaginu of dýrkeyptar og mikilvæg framfaramál eru í sífelldri pattstöðu.
Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að rísa upp úr öskunni þarf að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu án tafar. Fyrsta verk verði að leita tækifæra til ríkisstjórnarmyndunar á hægri væng stjórnmálanna. Öðrum kosti rjúfi forsætisráðherra þing og boði til kosninga fyrir áramót.
Ráðgjafinn tekur undir með Óla Birni: „Hingað og ekki lengra“.
Ráðgjafinn er vikulegur pistill þar sem innanbúðarmaður tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.