Innlent

„Loksins!“ segja ungir sjálf­stæðis­menn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar stjórnarslitum.
Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar stjórnarslitum. Vísir/Sigurjón

Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar ákvörðun Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um að binda enda á ríkisstjórnarsamstarfið.

Í ályktun sem félagið gaf frá sér í dag segir það að enginn geti sett Sjálfstæðisflokknum afarkosti og því sé brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn sæki endurnýjað umboð í kosningum.

Á mynd sem fylgir færslunni stendur í skýrum ljósbláum stöfum: „Loksins!“

Í ályktuninni kemur fram að síðastliðið vor hafi Sjálfstæðisflokkurinn ákveðið að leggja áherslu á þrjá málaflokka: efnahagsmál, hælisleitendamál og orkumál. Árangur hafi náðst í þessum málaflokkum en ljóst sé þó að ganga þurfi lengra.

„Sé ekki samstaða um áframhaldandi árangur innan ríkisstjórnarinnar er ljóst að forsendur fyrir samstarfinu eru brostnar," segir í ályktuninni.

Samband ungra sjálfstæðismanna segir einnig að atkvæði greitt öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum dragi úr vægi Sjálfstæðisstefnunnar.

„Sjálfstæðisflokkurinn óttast ekki kosningar enda stuðlar stefna og hugmyndafræði hans að öflugu atvinnulífi, sterku velferðarkerfi, viðskiptafrelsi og framförum fyrir íslenska þjóð eins og reynslan sannar,“ segir í ályktun félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×