Handbolti

Ó­að­finnan­leg Elín Klara skaut Haukum upp í þriðja sætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elín Klara var óstöðvandi í kvöld.
Elín Klara var óstöðvandi í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar eru komnir í 3. sæti Olís-deildar kvenna í handbolta eftir góðan sigur á ÍR sem áttu engin svör við stórbrotnum leik Elínar Klöru Þorkelsdóttur.

Fyrri hálfleikur á Ásvöllum var hin mesta skemmtun og munurinn aðeins tvö mörk í hálfleik, staðan þá 12-10. Í síðari hálfleik var hins vegar annað upp á teningnum þar sem heimaliðið náði upp góðri forystu en ÍR-ingar bitu frá sér og var munurinn aftur kominn niður í tvö mörk um miðjan síðari hálfleik.

Hingað og ekki lengra var hins vegar svar Hauka sem fóru í fimmta gír undir lok leiks og unnu á endanum átta marka sigur, lokatölur 28-20.

Eins og svo oft áður var Elín Klara allt í öllu í leik Hauka en samkvæmt tölfræði leiksins spilaði hún hreint út sagt óaðfinnanlega í kvöld.

Skoraði Elín Klara 14 mörk úr 14 skotum. Þar á eftir kom Rakel Oddný Guðmundsdóttir með fjögur mörk á meðan Sara Sif Helgadóttir varði 17 skot í markinu og var með 46 prósent markvörslu.

Sara Dögg Hjaltadóttir var markahæst hjá ÍR með sex mörk og Karen Tinna Demian kom þar á eftir með fjögur mörk. Ingunn María Brynjarsdóttir varði níu skot í markinu.

Haukar eru nú með 8 stig í 3. sæti að loknum sex leikjum, stigi minna en Fram og tveimur minna en topplið Vals sem á leik til góða. ÍR er í 7. sæti með tvö stig og hefur ekki enn unnið leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×