Íslenski boltinn

Sjáðu markið sem hélt lífi í vonum HK

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
HK-ingar fagna sigurmarki Þorsteins Arons Antonssonar gegn Frömurum.
HK-ingar fagna sigurmarki Þorsteins Arons Antonssonar gegn Frömurum. vísir/diego

Þorsteinn Aron Antonsson skoraði sigurmark HK gegn Fram á elleftu stundu í gær. HK-ingar eiga því enn möguleika á að halda sér í Bestu deild karla. Í gær unnu KR-ingar svo sinn þriðja sigur í röð þegar þeir sóttu fallna Fylkismenn heim.

Fram náði forystunni í Kórnum á 20. mínútu þegar Alex Freyr Elísson skoraði eftir sendingu frá Fred. Alex Freyr hefur skorað í fjórum leikjum í röð.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Birnir Breki Burknason fyrir HK með skalla eftir sendingu Ívars Arnar Jónssonar.

Þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Þorsteinn Aron svo sigurmark HK. Þetta var þriðja mark hans í sumar. Þau hafa öll komið gegn Fram og öll verið sigurmörk.

HK er áfram í ellefta sæti deildarinnar og þarf að ná í betri úrslit en Vestri í lokaumferðinni á laugardaginn. HK sækir þá KR heim á meðan Vestri fær Fylki í heimsókn. Fram er í 9. sæti deildarinnar.

Klippa: HK 2-1 Fram

Í Árbænum vann KR 0-1 sigur á Fylki. Eina mark leiksins kom strax á 4. mínútu en það gerði Aron Sigurðarson.

Fylkismenn voru manni færri frá 28. mínútu en þá fékk Nikulás Val Gunnarsson rautt spjald fyrir brot á Birgi Steini Styrmissyni.

KR hefur nú unnið þrjá leiki í röð og er komið upp í 8. sæti deildarinnar. Fylkir er enn á botninum og endar þar sama hvernig fer í lokaumferðinni.

Klippa: Fylkir 0-1 KR

Mörkin og rauða spjaldið úr leikjum gærdagsins má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

„Ég trúi þessu ekki enn­þá“

Þorsteinn Aron Antonsson, leikmaður HK, var himinlifandi í leikslok eftir að hafa skorað dramatískt sigurmark gegn Fram í Bestu deildinni í kvöld sem þýðir að HK á enn von um að halda sér í deildinni.

„Ég reyndi að standa mig eins og í öllum öðrum leikjum“

Matthias Præst Nielsen var í undarlegum aðstæðum í kvöld þegar hann lék með núverandi liði sínu Fylki, gegn framtíðarliði sínu KR. Matthias klæddi sig í treyju KR undir lok félagaskiptagluggans í sumar og skrifaði undir samning, sem tekur gildi þegar tímabilinu lýkur næstu helgi. Hann segir það hafa verið svolítið skrítið en reyndi að standa sig eins og í öllum öðrum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×