Innlent

Reynir tapar minningar­greina­máli aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Reynir Traustason er ritstjóri Mannlífs og einn eigenda Sólartúns.
Reynir Traustason er ritstjóri Mannlífs og einn eigenda Sólartúns. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms Reykjaness um að Reynir Traustason og útgáfufélagið Sólartún ehf., útgefandi Mannlífs, eigi að greiða Morgunblaðinu fimmtíu þúsund krónur fyrir endurbirtingar á minningargreinum blaðsins, og þrjú hundruð þúsund krónur til bróður manns sem Mannlíf birti minningargrein um. Grein þessi var að hluta til tekin úr Morgunblaðinu.

Það voru Reynir Traustason og Sólartún sem áfrýjuðu málinu. Málskostnaður fyrir Landsrétti var felldur niður. Dóminn má finna hér.

Reynir og Sólartún munu einnig þurfa að láta birta dóminn í prentútgáfu Morgunblaðsins. Upprunalega átti einnig að birta hann í Fréttablaðinu en það er ekki hægt lengur, þar sem rekstri þess hefur verið hætt.

Bæði Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins, og Atli Viðar Þorsteinsson, plötusnúður fóru í mál við Reyni og Sólartún. Stefna Árvakar sneri að fréttaskrifum upp úr minningargreinum í Morgunblaðinu og stefna Atla snerist sérstaklega um frétt sem skrifuð var upp úr minningargrein um bróður hans.

Nánar má lesa um dóm héraðsdóms hér að neðan.

Í frétt Mannslífs um bróður Atla var tekið orðrétt upp úr minningargrein hans og voru Reynir og Sólartún talin hafa brotið gegn höfundalögum og sömuleiðis gegn sæmdarrétti Atla.

Endurbirting á minningargreinum úr Morgunblaðinu á vef Mannlífs hefur einu sinni verið tekið fyrir hjá siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að birting minningargreina væri opinber birting. Ekki var tekið tillit til höfundaréttarsjónarmiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×