Fótbolti

„Vin­sam­legast látið hann í friði“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Deschamps með Kylian Mbappe eftir sigur Frakka á Portúgölum á EM í sumar.
Didier Deschamps með Kylian Mbappe eftir sigur Frakka á Portúgölum á EM í sumar. Getty/Alex Pantling

Þrátt fyrir að Kylian Mbappé sé hvergi sjáanlegur í franska landsliðinu þá þarf franski landsliðsþjálfarinn engu að síður að svara spurningum um hann á blaðamannafundi liðsins.

Mbappé er ekki með franska landsliðinu nú ekki frekar en í síðasta landsliðsglugga.

Frakkar mæta Ísrael í Þjóðadeildinni í París í kvöld. Didier Deschamps var spurður um það á blaðamannafundi í gær hvort hann hafi rætt við Mbappé um þá ákvörðun að velja hann ekki í hópinn að þessu sinni.

Deschamps grínaðist í byrjun og sagðist hafa reyndar búist við þessari spurningu fyrr á fundinum. Hann varð síðan aftur alvarlegur á svipinn og reyndi að komast undan því að svara þessu beint. ESPN segir frá.

„Hlustið á mig. Ég sagði ykkur það sem ég sagði. Ykkur er frjálst að ræða það og setja ykkar skilning í þau orð. Það er leikur hjá mér á morgun. Það eru 23 leikmenn hér. Kylian er ekki hér. Vinsamlegast látið hann í friði,“ sagði Deschamps.

Mbappé skoraði sitt 48. og síðasta landsliðsmark í júní en hefur ekki bætt við marki síðan.

Það hefur heldur ekki gengið alltof vel hjá honum að fóta sig með liði Real Madrid.

Hann var meiddur í síðasta landsliðsglugga en núna var hann ekki valinn. Franskir fjölmiðlamenn hafa efast um þá skýringu Deschamps að hann hafi ákveðið að velja hann ekki og sumir halda því fram að Mbappé vilji hreinlega ekki spila lengur fyrir franska landsliðið.

Hann hefur fengið á sig harða gagnrýni í heimalandinu enda eru kröfurnar miklar sem eru gerðar til hans. Deschamps vill augljóslega ekki ræða fjarveru Mbappé frekar og ætlar að einbeita sér að komandi leikjum án hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×