Fótbolti

Ó­ljóst hvar landsleikir í apríl fara fram

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ljóst er að Laugardalsvöllur verður ekki tilbúinn fyrir leiki stelpnanna okkar í apríl. Enn á eftir að negla niður leikstað.
Ljóst er að Laugardalsvöllur verður ekki tilbúinn fyrir leiki stelpnanna okkar í apríl. Enn á eftir að negla niður leikstað. vísir/Anton

Óljóst er hvar kvennalandslið Íslands í fótbolta spilar heimaleiki liðsins í Þjóðadeildinni í apríl næstkomandi. Landsliðsþjálfarinn vonast eftir því að lending finnist á því máli fljótlega.

Ísland dróst í riðil með Frakklandi, Noregi og Sviss í A-deild Þjóðadeildarinnar og keppni hefst í febrúar. Ísland byrjar á tveimur útileikjum við Sviss og Frakkland en í apríl er komið að tveimur heimaleikjum við Noreg og Sviss.

Framkvæmdir standa yfir á Laugardalsvelli og ljóst að hann er óleikfær. Kröfur til leikvalla eru lægri kvennamegin en karlamegin og ljóst að leikir karlalandsliðsins geta ekki farið fram annars staðar en á Laugardalsvelli hérlendis eins og sakir standa.

Kvennalandsliðið spilaði á Kópavogsvelli í fyrra og kveðst Þorsteinn vonast eftir að það verði lendingin. Stelpurnar okkar þurfa í það minnsta ekki að leika heimaleikina erlendis ef marka má svar Þorsteins aðspurður um það hvar leikirnir færu fram.

„Nei, þeir fara allavega ekki fram hér á Laugardalsvelli. Það verður á einhverjum gervigrasvellinum hérna á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi verður það bara Kópavogsvöllur. Það kemur bara í ljós og væntanlega skýrist á næstu dögum,“ segir Þorsteinn í samtali við íþróttadeild.

Viðtalið má sjá í heild sinni að neðan. Nánar verður fjallað um kvennalandsliðið í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.

Klippa: Gott að vera laus við stressið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×