Sport

Dómarinn fluttur í burtu á börum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mitch Dunning lá sárþjáður á eftir á ísnum í leik Colorado Avalanche og Philadelphia Flyers.
Mitch Dunning lá sárþjáður á eftir á ísnum í leik Colorado Avalanche og Philadelphia Flyers. Getty/Gregory Fisher

Dómari í bandaríska íshokkíinu slasaðist illa í leik í NHL-deildinni í vikunni.

Dómarinn heitir Mitch Dunning og var dómari í leik Philadelphia Flyers og Colorado Avalanche sem fór fram í Wells Fargo Center.

Slysið varð eftir aðeins sex mínútna leik. Það gengur oft mikið á á ísnum og þá er eins gott að passa sig.

Dómarinn var þarna að skauta aftur á bak til að fylgjast með því sem var að gerast í leiknum.

Þegar hann var í kringum miðlínuna þá lenti hann í mjög slæmu samstuði við Avalanche leikmanninn Josh Manson. Manson sjálfur var að horfa á pökkinn og tók ekki eftir dómaranum.

Dunning lá hreyfingalaus eftir og var sárþjáður. Leikmaðurinn er auðvitað mikið betur varinn heldur en dómarinn sem er bara með hjálm. Menn óttuðist strax um mænuskaða því dómarinn kvartaði undan verk í hálsi.

Eftir langa meðferð á ísnum var dómarinn síðan fluttur í burtu á börum og á sjúkrahús. Það var mjög hljótt í höllinni þegar Dunning var tekinn í burtu á börum enda óttuðust margir hið versta.

Dunning er 32 ára gamall kanadískur dómari en hann gat í fyrstu ekki hreyft hendurnar.

Í þriðja leikhluta fréttist að honum liði betur, væri með fulla meðvitund og gæti nú hreyft alla hluti líkamans.

Colorado vann leikinn á endanum 3-2 eftir tvo lagleg mörk frá stórstjörnunni Cale Makar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×