Hamilton endaði í 10. sæti í brasilíska kappakstrinum. Hann var verulega pirraður með gang mála og í talstöðinni þakkaði hann samstarfsmönnum sínum fyrir ef þetta reyndist vera síðasti kappakstur hans.
Þegar sjöfaldi heimsmeistarinn var spurður út í þessi ummæli sagðist hann hafa íhugað að hætta hjá Mercedes eftir keppnina í Brasilíu.
„Á þessu augnabliki leið mér þannig. Ég vildi eiginlega ekki snúa aftur eftir þessa helgi. Í hita augnabliksins vildi ég miklu frekar slappa af á ströndinni en að gera þetta,“ sagði Hamilton.
„En ég er hér. Ég elska þetta starf og ætla að gefa allt sem ég á í síðustu keppnirnar og enda vel. Það var alltaf stefnan.“
Hamilton yfirgefur Mercedes eftir tímabilið og gengur í raðir Ferrari. Hann hefur ekið fyrir Mercedes í tólf ár.
Hamilton snýr aftur á brautina um helgina þegar kappaksturinn í Las Vegas fer fram. Þar getur Max Verstappen tryggt sér heimsmeistaratitilinn fjórða árið í röð. Hamilton er í 7. sæti í keppni ökuþóra.