Eldgos hófst á tólfta tímanum í gærkvöldi, það sjöunda á árinu og það tíunda frá upphafi goshrinunnar í mars 2021. Sprungan nýja liggur í norðaustur austan Grindavíkurvegar en hraun hefur flætt vestur yfir Grindavíkurveg og náði inn á bílastæði Bláa lónsins upp úr hádegi.

„Varnargarðarnir eru að verja starfsemina að öllu leyti,“ segir Helga sem er staðsett í Svartsengi innan varnargarða. Þannig er hún í nágrenni hraunflæðisins þó hún sjái það ekki með berum augum vegna varnargarðanna.

Eins og flæðið hafi verið megi reikna með því að hraunið fari í gengum bílastæði Bláa lónsins. Eldur hefur kviknað í gámum á bílastæðinu sem notaðir hafa verið tímabundið sem þjónustuhús. Sem salerni og til að geyma ferðatöskur erlendra ferðamanna sem eru langstærsti hluti gesta á degi hverjum.

„Það er engin eiginleg starfsemi eða hlutir þar inni.“
Helga jánkar því að hjartslátturinn hjá forsvarsfólki Bláa lónsins sé stöðugur þökk sé varnargörðunum.