Dana Björg spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti í gær þegar íslenska kvennalandsliðið tapaði naumlega, 27-25, á móti Hollandi. Frábær leikur hjá íslensku stelpunum á móti einu besta liði heims.
Dana er nýkomin inn í íslenska landsliðið því fyrstu landsleikir hennar voru í október síðastliðnum.
Dana er búsett í Noregi og spilar með Volda. Hún hefur staðið sig það vel þar að Arnar Pétursson ákvað að velja hana í EM-hópinn sinn. Hún er eins og er varamaður Perlu Albertsdóttur en fékk að spila í jöfnum leik á móti Hollandi.
Dana spilaði kannski bara í tólf og hálfa mínútu og náði ekki skoti á marki en hún kom sér ofarlega á blað á einum tölfræðilista.
Mótshaldarar mæla hlaupahraða leikmanna á mótinu og Dana hljóp hraðast af íslensku leikmönnunum í leiknum.
Dana mældist nefnilega á 27,11 kílómetra hraða.
Næstfljótust af íslensku stelpunum var Perla Albertsdóttir sem mældist á 26,03 kílómetra hraða. Þórey Rósa Stefánsdóttir var síðan þriðja á 25,88 kílómetra hraða.
Aðeins tveir leikmenn hlupu hraðar en okkar konu i fyrstu umferð riðlakeppninnar en það voru pólska stelpan Adrianna Górna og svissneska stelpan Mia Emmenegger. Hér fyrir neðan má sjá topp tíu listann.
