Þrátt fyrir að skapa fá dauðafæri og nurla saman aðeins 0,97 væntum mörkum tókst Real Madrid að skora þrjú gegn Girona, sem hefur ekki fagnað frábæru gengi á tímabilinu og situr í áttunda sæti.
Jude Bellingham braut ísinn eftir rúman hálftíma og lagði svo annað mark upp á Arda Guler í byrjun seinni hálfleiks. Kylian Mbappé gulltryggði svo sigurinn með sínu áttunda marki á tímabilinu, eftir stoðsendingu Luka Modric.
Barcelona gerði 2-2 jafntefli við Real Betis fyrr í dag
Robert Lewandowski skoraði opnunarmark leiksins undir lok fyrri hálfleiks. Hann er kominn með sextán mörk á tímabilinu og er markahæstur í deildinni.
Á 66. mínútu jafnaði Betis hins vegar leikinn af vítapunktinum eftir að Frenkie de Jong braut af sér í vítateignum. Hansi Flick, þjálfari Barcelona, var brjálaður yfir dómnum og fékk að líta rautt spjald fyrir mótmæli sín.
Börsungar komust aftur yfir á 80. mínútu og virtust ætla að hafa sigurinn, þar til Betis jafnaði aftur í uppbótartíma.
Barcelona er enn í efsta sæti deildarinnar, en gæti misst það frá sér fljótlega. Real Madrid er nú aðeins tveimur stigum á eftir og á leik til góða.