Tveir voru handteknir eftir að átök brutust út þeirra á milli á heimili í póstnúmerinu 110. Voru þeir vistaðir í fangageymslu og málið í rannsókn. Í sama hverfi var tilkynnt um tvo einstaklinga sem höfðu komið sér fyrir í geymslu og kveikt eld til að hlýja sér en þeim var vísað út án vandræða.
Lögregla var einnig kölluð til vegna elds í bifreið í Mosfellsbæ en þegar komið var að reyndist bíllinn alelda og var slökkvilið kallað til.
Einn var handtekinn í miðborginni grunaður um rán með „rafstuðtæki“ og þá var tilkynnt um innbrot í verslun í póstnúmerinu 108.
Lögreglu barst einnig tilkynning um umferðarslys í Kópavogi þar sem bifreið hafði verið ekið utan í vegrið. Ökumaðurinn hafði yfirgefið bifreiðina þegar komið var að en snéri aftur á meðan lögregla var að störfum á vettvangi og var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.
Annar ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum eftir umferðarslys í póstnúmerinu 113, þar sem bifhjól og jepplingur lentu saman. Ökumaður bifhjólsins slasaðist lítillega.