Stéttarfélagið Efling og Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, hér eftir SVEIT, hafa staðið í ákveðnum deilum allt frá því samtökin voru stofnuð sumarið 2021. Markmið SVEIT allt frá upphafi hefur verið að jafna kaup og kjör dagvinnufólks og þeirra í kvöld- og helgarvinnu.
Deilan harðnaði þegar SVEIT skrifaði undir kjarasamning við nýtt stéttarfélag sem kallast Virðing. Efling segir Virðingu vera gervistéttarfélag, búið til af SVEIT svo samtökin nái sínu fram. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður SVEIT, segir aðgerðir Eflingar í kjölfarið fordæmalausar.
„Það er bara í eðli formannsins og ákveðinna hópa innan Eflingar að það sé betra að vera með hnefann á lofti og láta fólk frá Eflingu ryðjast inn á veitingastaði eins og menn hafa orðið vitni að. Þar sem kemur hópur fólks í gulum vestum og hefur truflað afgreiðslu,“ segir Sigurður.
Hann segir ungt fólk í hlutastarfi sem staldrar stutt við á hverjum vinnustað fá talsvert betri kjör en þeir sem eru í dagvinnu á veitingastöðum. Það sé afar ósanngjarnt.
„Þetta hafa veitingahúsaeigendur ítrekað reyunt að ræða við Samtök atvinnulífsins og verkalýðsfélögin en það er bara ekki hlustað á þau. Það á bara að búa til einhvern heildarkjarasamning sem allir eiga að vera bundnir að, án tillits til þess hvernig sá kjarasamningur kemur niður á rekstrinum sem á hlut að máli. Það verður alltaf að horfa á heildarmyndina þegar verið er að gera kjarasamninga en ekki svona „general módel“,“ segir Sigurður.