Innlent

Hellis­heiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tvísýnt er með opnanir í dag víða um land.
Tvísýnt er með opnanir í dag víða um land. Aðsend

Vegagerðin býst ekki við því að hægt verði að opna Hellisheiði og Þrengsli í dag samkvæmt veðurspá. Hún bendir á Suðurstrandarveg til Grindavíkur sem hjáleið en að þar sé hvasst, hálka og éljagangur.

Sama á við um Öxnadalsheiði sem Vegagerðin telur ekki líklegt að muni opna í dag. Snjóþekja og skafrenningur er á Þverárfjalli. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar umferðin.is.

Hálkublettir eða snjóþekja er víða á vegum á höfuðborgarsvæðinu og Mosfellsheiði en lokuð vegna veðurs. Einnig eru Holtavörðuheiði og Brattabrekka lokaðar og Vegagerðin telur ekki miklar líkur á því að þær muni opna í dag. Bent er á hjáleið um Laxárdalsheiði og Heydalsveg en að hálka og snjóþekja sé á flestum leiðum og vont færi víða.

Á Vestfjörðum er ófært á Steingrímsfjarðarheiði, Klettshálsi, Dynjandisheiði, Hálfdán og í Ísafjarðardjúpi en þungfært eða þæfingur víða á suðurströndinni og á Þröskuldum. Snjóþekja er á milli Þingeyrar og Ísafjarðar og þar í kring.

Fyrir austan er hálka á flestum og ófært um Breiðdalsheiði og Öxi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×