Innlent

Fyrsti símafundurinn við utan­ríkis­ráð­herra Úkraínu

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra. vísir/vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti í dag, gamlársdag, símafund með Andrí Sybíha, utanríkisráðherra Úkraínu. Um er að ræða fyrsta símtalið sem Þorgerður tekur í nýju embætti við erlendan samstarfsmann sinn. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

„Í símtalinu ítrekaði Þorgerður Katrín stuðning Íslands við Úkraínu í varnarbaráttunni gegn árásarstríði Rússa sem staðið hefur yfir í að verða þrjú ár. Þau ræddu stöðuna í Úkraínu og ekki síst þær miklu áskoranir sem árásir Rússa á orkuinnviði hafa í för með sér yfir köldustu mánuðina,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt hafi þau rætt samstarf Íslands og Úkraínu á alþjóðavettvangi, framkvæmd bæði Úkraínustefnu Íslands sem var samþykkt á Alþingi í vor og tvíhliða samnings landanna um stuðning.

„Úkraínska þjóðin hefur sýnt ótrúlegt hugrekki og þrautseigju í varnarbaráttu sinni gegn innrásarliði Rússa og nauðsynlegt er að styðja þau með öllum tiltækum ráðum. Grimmdarleg framganga Rússlands hefur valdið úkraínsku þjóðinni gríðarlegum hörmungum og er um leið stærsta ógnin við öryggi Evrópu, þar með talið Íslands. Sem lýðræðisríki eigum við tilvist okkar undir virðingu fyrir alþjóðalögum og fullveldisrétti ríkja til að taka ákvarðanir um eigin örlög. Ísland getur því með engu móti staðið aðgerðarlaust hjá,“ er haft eftir Þorgerði í tilkynningunni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti í dag símafund með Andrí Sybíha, utanríkisráðherra Úkraínu.stjórnarráðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×