Körfubolti

Var að­dáandi Chiefs áður en Maho­mes og Tra­vis mættu til sögunnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caitlin Clark vonast til að fagna þriðja meistaratitli Kansas City Chiefs í röð áður en WNBA-deildin hefst á nýjan leik.
Caitlin Clark vonast til að fagna þriðja meistaratitli Kansas City Chiefs í röð áður en WNBA-deildin hefst á nýjan leik. Matthew Holst/Getty Images

Caitlin Clark, ein þekktasta íþróttakona heims um þessar mundir, er harður aðdáandi tvöfaldra NFL-meistara Kansas City Chiefs. Hún tekur þó ekki í mál að fólk haldi hana aðeins halda með liðinu eftir gríðarlega velgengni undanfarin ár.

Clark var þegar orðin heimsfræg þegar hún var valin fyrst allra í nýliðavali WNBA-deildarinnar fyrir síðasta keppnistímabil. Hún hafði brotið hvert metið á fætur öðru í háskólaboltanum og gerði slíkt hið sama með Indiana Fever í WNBA.

Hún hefur undanfarið notið þess að vera í verðskulduðu fríi enda fór WNBA-deildin af stað nær strax eftir að síðasta tímabili hennar í háskóla lauk. Nýtti Clark þann tíma meðal annars til þess að mæta í hlaðvarpið New Heights en þáttastjórnendur eru bræðurnir Jason og Travis Kelce.

Sá síðarnefndi er einn af frægari leikmönnum NFL-deildarinnar og leikur með liðinu sem Caitlin heldur með, meisturum Kansas City Chiefs. Þá er Travis einnig þekktur fyrir að vera í sambandi með tónlistarkonunni Taylor Swift.

Í viðtali sínu við þá bræður kom í ljós að Caitlin styður Travis og félaga. Ástæðan er einföld, þegar hún var að alast upp var Chiefs næst heimili hennar af þeim liðum sem spila í NFL. Þá er faðir hennar mikill aðdáandi.

„Við höfum alltaf verið miklir aðdáendur. Árangurinn undanfarin ár hefur gert það enn skemmtilegra. Við reyndum að fara öll saman, frænkur og frændur, á einn leik á tímabili. Við höfum reynt að halda í þá hefð og fórum öll á leikinn á jóladag á síðasta ári,“ sagði Clark meðal annars.

Kansas City Chiefs er sem stendur með bestan árangur allra liða í NFL-deildinni, 15 sigra og eitt tap. Þar sem sæti í úrslitakeppninni er tryggt mun liðið hvíla sína bestu menn í lokaumferð NFL-deildarinnar sem fram fer um helgina.

Hvað Caitlin Clark og Indiana Fever varðar þá hefst næsta WNBA-tímabil þann 16. maí næstkomandi og vonast liðið til að komast lengur en aðeins í fyrstu umferð úrslitakeppninnar að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×