Íslenski boltinn

„Hann er mjög eftir­minni­legur og mér þykir vænt um hann“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þórarinn Ingi Valdimarsson leikmaður Stjörnunnar með bikarinn eftir leikinn árið 2018.
Þórarinn Ingi Valdimarsson leikmaður Stjörnunnar með bikarinn eftir leikinn árið 2018.

Eyjamaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson er hættur í fótbolta. Hann lítur stoltur til baka yfir ferilinn.

Þórarinn Ingi, sem 34 ára lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki árið 2007 með ÍBV. Sex árum seinna fór hann til norska félagsins Sarpsborg þar sem hann lék með félaginu í 18 mánuði. Þaðan lá leiðin til FH þar sem hann varð í tvígang Íslandsmeistari með félaginu. Árið 2018 samdi hann síðan við Stjörnuna þar sem hann lék út ferilinn og yfir 300 leiki fyrir Garðbæinga. Hann á að baka fjóra A-landsleiki.

„Fínt að kveðja þetta núna. Þetta er búið að vera í hausnum á mér frá því að við kláruðum síðasta leik og núna er þetta bara komið gott,“ segir Þórarinn í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Maður er stoltur og ég geng sáttur frá borði. Það voru eldri menn að segja mér að maður gæti mögulega fengið eftirsjá seinna meir. Á þessum tímapunkti er þetta komið virkilega gott. Maður man mest eftir titlunum, þessir tveir Íslandsmeistaratitlar með FH og svo tók maður einn bikartitil með Stjörnunni. Það stendur upp úr og það sem maður er stoltastur af á sínum ferli.“

FH heillandi

Hann segir að eina eftirsjáin eftir ferilinn er að hafa ekki þraukað lengur erlendis.

„Maður fór á lán í eitt og hálft ár og ÍBV var þá í slæmri stöðu. Maður kom til baka þegar þeir voru í fallbaráttu og maður hjálpaði þeim að halda sér uppi. Þá vonaði maður að það kæmi eitthvað að utan en þá kom FH. Og FH á þessum tíma var hrikalega heillandi og þeir voru ekki lengi að selja mér það að koma í FH.

Hann varð bikarmeistari með Stjörnunni árið 2018 eftir sigur á Blikum í vítaspyrnukeppni í fimbulkulda.

„Það var skítakuldi og síðan að fá mjólk í smettið í restina var svolítið kalt. Hann er mjög eftirminnilegur og mér þykir vænt um hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×