Innlent

Nefndir þingsins að taka á sig mynd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víðir og Ragnar Þór þekkja ágætlega að stýra fundum úr fyrri störfum þeirra.
Víðir og Ragnar Þór þekkja ágætlega að stýra fundum úr fyrri störfum þeirra. Vísir/vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins í Reykjavík og fyrrverandi formaður VR, verður formaður fjárlaganefndar. Þetta herma heimildir fréttastofu.

Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins hafa unnið að því að skipta fastanefndum þingsins á milli sín og eru línur aðeins farnar að skýrast.

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík, varaformaður fjárlaganefndar. Talið hafði verið líklegt að Dagur yrði þingflokksformaður flokksins en sú staða féll Guðmundi Ara Sigurjónssyni í skaut.

Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, verður formaður allsherjar- og menntamálanefndar samkvæmt heimildum fréttastofu.

Þá verður Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis samkvæmt heimildum fréttastofu.

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mun koma úr röðum stjórnarandstöðunnar.

Enn er óljóst hvenær nýtt Alþingi kemur saman. Enn er beðið álits landskjörstjórnar vegna kæra sem komið hafa fram úr röðum Pírata og Framsóknarflokksins vegna framkvæmdar alþingiskosninganna 30. nóvember í Suðvesturkjördæmi.

Samkvæmt stjórnarskrá verður forsætisráðherra að gera tillögu til forseta Íslands um að kalla Alþingi saman innan tíu vikna frá kosningum. Tíu vikur verða liðnar frá kosningum þann 8. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×