Samninganefnd sveitarfélaga er með grunn-, leik- og tónlistarskóla á sínu forræði en samninganefnd ríkisins með framhaldsskólana. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hnúturinn í viðræðum við ríkið væri harðari. „Við höfum ekki ennþá fundað með samninganefnd ríkisins og því miður er ég á því að þau séu kannski lengra frá samkomulagi eða alvöru samningsvilja þeim megin heldur en sambandsmegin.“
Ef samningar nást ekki fyrir mánaðamót hefjast verkfallsaðgerðir kennara á ný og hefur ríkissáttasemjari sagt að enn beri mikið í milli. Að óbreyttu munu kennarar leggja niður störf í tuttugu og einum skóla, fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum þann 1. febrúar.
Kennarar fara fram á að laun verði jöfnuð á milli markaða líkt og samkomulag var gert um árið 2016. Formaður samninganefndar sveitarfélaga sagði fréttastofu í vikunni að viðræðurnar hefðu fyrir helgi helst strandað á miklum launakröfum Kennarasambandsins.