Skoðun

Að skipta þjóðinni í tvo hópa

Ingólfur Sverrisson skrifar

Fullkomna fjarstæðu mætti kalla ef nokkurt þeirra fyrirtækja hér á landi sem færa reikningsskil sín í erlendum gjaldmiðlum léti sér detta í hug að halda ótilneydd aftur inn í íslenska krónuhagkerfið. Þessi fyrirtæki eru nú hálft þriðja hundrað með stóran hlut útflutningsframleiðslunnar og fer fjölgandi. Þau kæra sig alls ekki um að fara aftur í krónuhagkerfið og þar með í mun óhagkvæmara

rekstrarumhverfi með hærri vöxtum og verri þjónustu frá íslenskum bönkum sem þau sleppa við með því að skipta við erlenda banka í raunverulegri samkeppni. Flest bendir til að innan skamms verði meirihluti reksturs íslenskra fyrirtækja færður í evrum eða dollurum og íslenska krónan komi þar hvergi nærrri.

Þar með eru þverhausarnir sem ekki vilja einu sinni skoða að ganga í ESB og taka upp evru búnir að koma málum svo haganlega fyrir að þjóðin og fyrirtæki hennar skiptast í tvo hópa sem búa við gjörólík kjör. Þetta er sannarlega staðan í dag og öll viðleitni til að losa þessa ósvinnu úr læðingi er lögð að jöfnu við landráð sem er auðvitað eins og hver annar kjánagangur.

Þingkona Framsóknar, Ingibjörg Ísaksen, sagði í Mbl. 09.01.25: „Eflaust trúa því einhverjir að innganga í ESB leysi öll okkar vandamál og er þá litið á evruna sem galdratæki sem bjargað geti öllum vandræðum okkar í eitt skipti fyrir öll.”

Slíkri og þvílíkri skilgreiningu hefur auðvitað enginn heilvita maður haldið fram. Þess vegna eru orð hennar út í hött. Aftur á móti hefur oft verið bent á að stærri gjaldmiðill myndi auðvelda baráttuna við verðbólgu og dýrtíð og von til að sjá árangur til lengri tíma hvað varðar efnahagsstjórn hér á landi; ekki einlægt þessar sveiflur og bráðareddingar sem vísa svo bara aftur á næsta verðbólguskeið með sínum illu afleiðingum eins og við höfum átt að venjast síðustu áratugi með minnsta gjaldmiðil í veröldinni. En til eru þeir stjórnmálamenn sem eiga erfitt með að læra af reynslunni.

Nú þegar hafa öll öflugustu útflutningsfyrirtæki landsins forðað sér frá þessu sjálfskaparvíti til evru- eða dollarahagkerfisins; hafa það þess vegna miklu betra og sækjast ekki eftir að komast í hið rómaða krónuhagkerfi sem er einasta ávísun á mun verra rekstrarumhverfi.

Unga framsóknarkonan ætlar því greinilega að bera áfram ábyrgð á afleiðingum þess að fyrirtækjum og einstaklingum verði mismunað svo freklega í framtíðinni. Við það skiptist þjóðin í tvo hópa sem búa við gjörólík kjör og misrétti og mun í framtíðinni vekja alþjóðaathygli fyrir heimóttarleg viðbrögð og skaðlega nesjamennsku. Það er dálagleg framtíðarsýn eða hitt þó heldur.

Höfundur er eftirlaunaþegi og fyrrum forstöðumaður samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði.




Skoðun

Sjá meira


×