United gerði 2-2 jafntefli við Liverpool á útivelli í ensku úrvalsdeildinni og vann Arsenal síðan í vítakeppni á útivelli í ensku bikarkeppninni.
Næst á dagskrá er deildarleikur á móti Southampton á Old Trafford. Amorim segist ætla að fylgjast vel með því hvernig hans leikmenn mæta til leiks í leik sem liðið á að vinna. ESPN segir frá.
„Ég held að næsti leikur munu kenna mér meira um mína leikmenn en síðustu tveir,“ sagði Ruben Amorim á blaðamannafundi fyrir leikinn.
„Ég bíð spenntur eftir því að sjá hvernig við munnum spila á móti Southampton. Það kemur allt í ljós á fimmtudaginn,“ sagði Amorim.
„Það voru engar væntingar gerðar til okkar í síðustu tveimur leikjum. Enginn bjóst við neinu en núna eru allir að búast við því að við spilum vel og vinnum. Það mun kenna mér og sýna mér meira um mína menn,“ sagði Amorim.
United hefur ekki unnið heimaleik í meira en mánuð eða síðan liðið vann Everton 1. desember síðastliðinn. Síðustu þrír leikir á Old Trafford hafa tapast og félagið hefur ekki tapað fleiri heimaleikjum í röð í efstu deild síðan fyrir seinni heimsstyrjöld (1930).
Amorim vildi ekkert ræða Marcus Rashford þegar hann var spurður út í það hvort Rashford myndi spila á móti Southampton.
„Ég vil bara vinna. Mín einbeiting er öll á sigur á morgun. Ég mun því velja þá leikmenn sem ég tel að munu skila mér þessum sigri,“ sagði Amorim.