Handbolti

Norð­menn í súran flokk með Ís­lendingum frá því á HM á Ís­landi 1995

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur ekki gengið vel hjá Sander Sagosen og félögum í norska landsliðinu á þessu heimsmeistaramóti þrátt fyrir að þeir séu á heimavelli í keppninni.
Það hefur ekki gengið vel hjá Sander Sagosen og félögum í norska landsliðinu á þessu heimsmeistaramóti þrátt fyrir að þeir séu á heimavelli í keppninni. Getty/Jozo Cabraja

Norðmenn töpuðu fyrir Portúgal á heimsmeistaramótinu í handbolta í gær og heimamenn fara því stigalausir inn í milliriðilinn. Norska liðið kom sér með þessum slaka árangri í fámennan og óvinsælan hóp gestgjafa í langri sögu HM í handbolta.

Norska liðið tapaði bæði á móti Brasilíu og Portúgal í riðlinum en fagnaði sigri á móti Bandaríkjamönnum.

Þetta er aðeins í þriðja sinn á þessari öld og í sjöunda skiptið í allri sögu HM þar sem gestgjafar á HM enda í þriðja sæti eða neðar í riðlakeppninni. Danski handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen fór yfir þessa staðreynd.

Pólverjar enduðu í þriðja sæti í sínum riðli á HM fyrir tveimur árum en svo þarf að fara alla leið til HM í Portúgal 2003 þegar heimamenn urðu í þriðja sæti í sínum riðli, þá á eftir Þýskalandi og Íslandi.

Íslendingar náðu líka bara þriðja sætinu í sínum riðli á HM á Íslandi vorið 1995 en enn verra gekk hjá Japönum sem lentu bara í fjórða sætið tveimur árum síðar.

Forsíða íþróttablaðs DV sparaði ekki stóru orðin eftir tapið á móti Rússum á HM 1995.Skjámynd/timarit.is/DV

Frökkum (1970) og Tékkóslóvökum (1990) gekk heldur ekki vel á heimavelli á heimsmeistaramóti karla í handbolta.

Þegar Ísland hélt HM 1995 þá vann íslenska liðið þrjá fyrstu leiki sína á móti Bandaríkjunum, Túnis og Ungverjalandi en tapaði síðan tveimur síðustu leikjunum á móti Suður-Kóreu og Sviss.

Íslenska liðið lenti því í þriðja sæti í sínum riðli sem þýddi að liðið mætti Rússum í sextán liða úrslitum og töpuðu þeim leik með þrettán mörkum, 12-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×