Handbolti

Holland marði Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dani Baijens var öflugur í liði Hollands sem var aldrei þessu vant í ljósbláu.
Dani Baijens var öflugur í liði Hollands sem var aldrei þessu vant í ljósbláu. EPA-EFE/Tibor Illyes

Holland hóf veru sína í milliriðli heimsmeistaramóts karla í handbolta á naumum eins marks sigri á Katar. Þá vann Ítalía góðan sjö marka sigur á Tékklandi.

Holland og Katar eru í milliriðli I og réðst leikurinn ekki fyrr en í blálokin þegar Niels Versteijnen tryggði Hollandi sigur, lokatölur 38-37.

Frankis Carol Marzo skoraði 11 mörk fyrir Katar og var markahæstur allra á vellinum. Hann gaf jafnframt fimm stoðsendingar. Dani Baijens var markahæstur hjá Hollendingum með níu mörk og fjórar stoðsendingar. Þá skoraði Lucas Steins sjö mörk og gaf átta stoðsendingar.

Hollendingar eru nú með fjögur stig á meðan Katar er án stiga.

Ítalía lagði Tékkland nokkuð örugglega, 25-18, og lætur sig dreyma um að stela öðru af tveimur toppsætum milliðrils I af Danmörku og Þýskalandi. Ítalía er með fjögur stig, líkt og toppliðin tvö, á meðan Tékkland er með eitt stig.

Efstu tvö liðin í hverjum milliriðli fara í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×