Viðskipti erlent

Enn deila Musk og Altman

Samúel Karl Ólason skrifar
Sam Altman og Elon Musk.
Sam Altman og Elon Musk. EPA

Elon Musk og Sam Altman, forstjóri OpenAI sem gerir út ChatGPT, eru enn að deila. Altman sakaði Musk um að segja ósatt eftir að Musk hélt því fram að nýtt fyrirtæki sem á að reisa gagnaver fyrir gervigreind OpenAI skorti fjármagn.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, talaði á þriðjudaginn um stofnun Stargate, sem er nýtt fyrirtæki og samstarfsverkefni OpenAI, Oracle og Softbank. Fyrirtækinu er ætlað að standa að umtalsverðri uppbyggingu gagnavera fyrir ChatGPT, gervigreind OpenAI.

Trump sagði að stefnt væri að allt að 500 milljarða dala fjárfestingu í Stargate.

Sjá einnig: Fjárfesta í gervigreind fyrir 70 billjónir

Stargate er þegar byrjað að reisa gagnaver í Bandaríkjunum og orkuinnviði fyrir þau, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Altman svaraði Musk í tveimur færslum. Í þeirri fyrstu sagðist hann bera mikla virðingu fyrir Musk og sagði hann Musk mest hvetjandi frumkvöðul okkar tíma.

Klukkutíma síðar svaraði Altman Musk aftur og sagði hann hafa rangt fyrir sér, eins og hann vissi sjálfur vel. Þá bauð Altman Musk að heimsækja fyrsta gagnaverið sem verið er að reisa.

„Þetta er frábært fyrir landið. Ég átta mig á því að það sem er frábært fyrir landið er ekki alltaf það besta fyrir fyrirtæki þín en í ljósi nýs hlutverks þíns vonast ég til þess að þú setjir Bandaríkin að mestu í forgang.“

Musk er auðugasti maður heims og náinn ráðgjafi Trumps, forseta Bandaríkjanna.

Kom að stofnun OpenAI

Musk kom að stofnun OpenAI, fyrirtækisins sem framleiddi ChatGPT gervigreindina svokölluðu. Hann yfirgaf fyrirtækið þó á endanum og stofnaði sitt eigið gervigreindarfyrirtæki, sem heitir xAI. Hann rekur einnig Tesla, SpaceX og X.

xAI er að reisa gagnaver í Tennessee og hefur Musk haldið því fram að fyrirtækið standi frammi fyrir ósanngjarnri samkeppni frá OpenAI og Microsoft, sem hefur séð OpenAI fyrir gagnaverum og reiknigetu.

Hann höfðaði síðan mál gegn OpenAI í fyrra. Hélt hann því fram að hann og aðrir forsvarsmenn þess hefðu á sínum tíma samþykkt að það yrði ekki rekið með hagnað í huga. Markmið Musks var að reyna að fá dómara til að meina fólki og félögum að hafngast á OpenAI og tækninni sem fyrirtækið hefur þróað.

Sjá einnig: Birta tölvupósta frá Musk

Nokkru síðar lét hann málið falla niður en hóf fljótt frekari málaferli gegn OpenAI. Málaferli þessi eiga að rata í dómsal í Kaliforníu í næsta mánuði.

Segja Microsoft ekki anna eftirspurn þeirra

Stargate verkefnið hefur vakið spurningar um áframhaldandi samstarf OpenAI og Microsoft, sem hefur fjárfest mjög í starfsemi fyrrnefnda fyrirtækisins og þróun ChatGPT.

Altman segir að sambandið milli fyrirtækjanna sé enn gott. Samstarfið sé gífurlega mikilvægt og muni halda áfram til langs tíma. OpenAI hefði þurft á meiri reiknigetu að halda.

Í frétt Wall Street Journal segir hins vegar að undanfarna mánuði hafi brestir myndast í sambandi fyrirtækjanna og leiðtoga þeirra. Meðal annars hafi þeir deilt um óseðjandi þörf OpenAI á tölvubúnaði og reiknigetu.

Forsvarsmenn OpenAI munu vera þeirrar skoðunar að Microsoft, sem er eitt stærsta gagnaverafyrirtæki heims, geti ekki séð gervigreindarfyrirtækinu fyrir nægilegri reiknigetu.

OpenAI reiðir nánast eingöngu á gagnaver Microsoft en það er liður í samkomulagi fyrirtækjanna frá 2019, þegar Microsoft fjárfesti fyrst í fyrirtækinu. Í heildina hefur Microsoft fjárfest fyrir um fjórtán milljarða dala í OpenAI og er langstærsti fjárfestirinn í fyrirtækinu.

Vinsældir ChatGPT hafa aukið þörf OpenAI gífurlega á undanförnum árum og hefur WSJ eftir forsvarsmönnum fyrirtækisins að breytingar á samkomulaginu við Microsoft séu nauðsynlegar.

Altman hefur kvartað við forsvarsmenn Microsoft yfir því að þeir séu að brjóta gegn samkomulaginu með því að veita þeim ekki nægilega góða þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×