Handbolti

Bein út­sending: Gleði og spenna hjá Ís­lendingum í Zagreb

Sindri Sverrisson skrifar
Gleðin er við völd hjá íslenskum stuðningsmönnum í Zagreb. Þeir gætu skipt sköpum í kvöld.
Gleðin er við völd hjá íslenskum stuðningsmönnum í Zagreb. Þeir gætu skipt sköpum í kvöld. VÍSIR/VILHELM

Vísir verður í beinni útsendingu frá miðborg Zagreb í dag, þar sem stuðningsmenn Íslands gleðjast saman og hita upp fyrir stórleikinn við Króatíu á HM í handbolta í kvöld.

Íslenskir stuðningsmenn hafa sett sterkan svip á mótið í Zagreb síðustu daga og fengið lof fyrir hjá leikmönnum landsliðsins sem einnig hafa farið á kostum hingað til.

Bein útsending frá Johann Franck veitingastaðnum, sem orðinn er að algjörum Íslendingastað í Zagreb, hefst um klukkan 16 í spilara sem birtist hér að neðan skömmu fyrir útsendingu.

Leikur Íslands og Króatíu hefst klukkan 19:30 að íslenskum tíma og verður ítarlega fjallað um hann í máli og myndum hér á Vísi.

Ísland getur með sigri í kvöld tryggt sér efsta sætið í milliriðli fjögur, og þar með leik í 8-liða úrslitum næsta þriðjudag gegn liðinu sem endar í 2. sæti milliriðils tvö (líklega Ungverjaland).

Tapi Ísland í kvöld er ljóst að liðið þarf að vinna Argentínu á sunnudaginn, og tapi liðið með fjórum mörkum eða meira í kvöld gæti það misst af 8-liða úrslitum. Það skýrist þó betur fyrir leik því ef Slóvenía nær í stig gegn Egyptalandi í dag er ljóst að Íslandi dugar einn sigur, gegn Króatíu eða Argentínu, til að komast í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×