Handbolti

„Gerðum ná­kvæm­lega það sem við ætluðum ekki að gera“

Sindri Sverrisson skrifar
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson vonsvikinn á gólfinu í Zagreb í kvöld.
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson vonsvikinn á gólfinu í Zagreb í kvöld. VÍSIR/VILHELM

„Við vorum með allt klárt og gerðum nákvæmlega það sem við ætluðum ekki að gera,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, hundóánægður eftir skelfilega útreið gegn Króatíu á HM í Zagreb í kvöld.

„Við vorum undir á öllum sviðum, bókstaflega,“ sagði Aron ómyrkur í máli í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson strax eftir leik.

Ísland hóf leikinn skelfilega og lenti 20-12 undir í fyrri hálfleiknum. Í seinni hálfleiknum tókst aldrei að minnka muninn nægilega til að hleypa spennu í leikinn, og auka vonina um að komast í 8-liða úrslitin.

„Nei því miður. Við gerðum nákvæmlega ekki það sem lagt var upp með, hvort sem það er taktík, hvernig við mætum klárir andlega, barátta, við vorum undir á öllum sviðum. Þetta er alfarið á okkur leikmönnum. Þetta svíður rosalega, því við vorum með allt á kristaltæru. Mér fannst við eiga að geta deliverað í dag en við gerðum það því miður ekki,“ sagði Aron.

Margt var reynt en það tókst ekki að svara Króötunum í kvöld:

„Sextíu mínútur geta verið lengi að líða og hægt að finna upp á einhverju, en því miður, þegar þetta er svona þá er þetta helvíti erfitt. Sérstaklega á móti þeim hérna á þeirra heimavelli. Við getum krufið þetta núna og reynt að finna einhverjar afsakanir en það er eitthvað sem við viljum ekki gera og notum ekki. Þess vegna er ég drullufúll yfir þessu,“ sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×