Veður

Snjó­magnið veru­legt en ekki óeðli­legt miðað við ár­stíma

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það kyngdi niður snjó alla helgina.
Það kyngdi niður snjó alla helgina. Vísir/Oddur Ævar

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir snjómagnið sem féll um helgina líklega það mesta sem hefur fallið í vetur en ekki óeðlilegt fyrir þennan árstíma.

„Það var um jólin líka en þetta hefur svona safnast saman. Það hefur verið þrálátur éljagangur og engin hláka þannig þetta hefur safnast saman. Þetta er drjúgur snjór en er ekkert óeðlilegt,“ segir Haraldur.

Hann segir þetta ágætis magn á stuttum tíma en þetta gerist annað slagið.

„Það á eftir að bæta á þetta seint í dag eða í kvöld. Þá á að bæta á snjóinn á Vesturlandi en eiginlega engin úrkoma hér á morgun.“

Seinna í vikunni er svo spáð hláku „með tilheyrandi leiðindum“.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar með veðurspá í dag kemur fram að lægð nálgast nú landið úr vestri og að áttin verði breytileg í dag. Vestanlands verði skýjað og dálítil él síðdegis, annars staðar megi búast við björtu veðri en stöku él fyrir norðan í morgunsárið.

Frost 0 til 13 stig, kaldast inn til landsins norðaustantil.

Á vef Vegagerðar má sjá að víðast hvar er hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Óvissustig er í Raknadalshlíð á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu og Hvítárvallavegur í Borgarfirði lokaður við Ferjukotssíki þar sem brúin skemmdist vegna vatnavaxta.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og stöku él við norðurströndina. Frost 2 til 15 stig, kaldast í innsveitum.

Á fimmtudag:

Gengur í hvassa suðaustanátt með slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri, en úrkomulítið norðaustanlands. Snýst í hægari suðvestanátt með éljum um kvöldið og kólnar aftur.

Á föstudag:

Suðlæg átt og úrkomulítið, frost víða 0 til 10 stig. Hvessir og hlýnar seinnipartinn, rigning sunnan- og vestantil á landinu um kvöldið.

Á laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir umhleypingasamt veður áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×