Á morgun taka gildi gular veðurviðvaranir víða um land, sem smám saman falla úr gildi yfir daginn. Síðan síðdegis á föstudag taka gildi viðvaranir um allt land sem standa yfir þangað til á sunnudagskvöld.
Siggi Stormur fjallaði um veðrið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
„Það væri kannski réttast að orða það þannig að landið er umlukið sól og blíðu, en það er eiginlega lognið á undan storminum“
Að sögn Sigga verður líklega vindasamt snemma í fyrramálið, en um níuleytið muni byrja að hvessa af meiri krafti og snjókoma fylgja með. „Þá er ég að tala um Faxaflóa, Reykjanesið, og vesturpart Suðurlands, einnig Snæfellsnes. Fimmtudagurinn verður mjög hvass á þessum stöðum. Það er með þessari snjókomu sem þróast í slyddu og svo rigningu þegar hitinn er orðinn nægur.“
Á föstudag má reikna með því að fólk verði aftur fyrir að finna fyrir hvassri átt á Suður- og Vesturlandi.
„Mér sýnist að það verði mikið vatnsveður sem fylgi þessu á föstudag, sérsaklega seinni partinn. Þá fer að blása hressilega mjög víða um landið með miklu vatnsverði. Þá er mér hugsað til þess að það hefur snjóað mikið á suðvestantil, og reyndar er mikill snjór víða á landinu öllu. Þetta verða mjög erfiðar aðstæður fyrir vatnið að komast niður í skólplagnirnar því að það er búið að vera að ryðja upp snjóhraukum vítt og breytt um borgina og bæi. Ég sé bara til dæmis í kringum mig, þar sem ég er, þar eru miklir snjóbingir yfir öllum niðurföllum. Ég hef áhyggjur af því. Hvert kemst vatnið? Allt þetta vatn sem er á leiðinni?“
Þarf ekki að fjarlægja þessa hóla?
„Ég myndi halda að það mætti gerast strax. Það má engan tíma missa í því að þeir sem vinna hjá bæjum og borg opni þessi niðurföll, eins mörg og mögulegt er. Við höfum enn þá séns í að taka þetta áður en ballið byrjar,“ segir Siggi.
„Það er svo mikill snjór í borginni sem verður allur á floti, meira og minna. Reynslan kennir okkur það að það er ekki hægt að opna öll niðurföll og það þarf bíða eftir að snjórinn bráðnar.“
Siggi segir að í dag og kvöld sé ágætis veður til að moka snjó og hvetur fólk því til að gera það sem fyrst.
Að sögn Sigga verður ekkert endilega betra veður á ferðinni á laugardag. Þá verði hvassast á vesturhelmingi landsins, bæði í höfuðborginni og á Snæfellsnesi.
„Það er ekkert ferðaveður. Þetta er bara þannig vindur og úrkoma að það borgar sig ekki að vera á ferðinni.“