Handbolti

For­setinn bein­skeyttur að­spurður um fram­tíð Al­freðs í starfi

Aron Guðmundsson skrifar
Alfreð Gíslason og hans menn eru úr leik á HM.
Alfreð Gíslason og hans menn eru úr leik á HM. Getty/Soeren Stache

For­seti þýska hand­knatt­leiks­sam­bandsins hefur tekið allan vafa varðandi framtíð Al­freðs Gísla­sonar í starfi lands­liðsþjálfara þýska karla­lands­liðsins. Al­freð er þeirra maður.

Þýska­land endaði í 6.sæti á nýaf­stöðnu heims­meistaramóti í hand­bolta og spruttu fram ein­hverjar gagn­rýnis­raddir eftir að ör­lög liðsins á mótinu urðu ljós, ein­hverjir sem töldu árangurinn ekki góðan og fóru af stað um­ræður um framtíð Al­freðs í starfi.

Ekki er langt síðan að samningur Ís­lendingsins í starfi var fram­lengdur og sömu­leiðis er ekki langt síðan að þýska lands­liðið vann til verð­launa undir hans stjórn, silfur­verð­laun á Ólympíu­leikunum í París í fyrra.

Í sam­tali við Bild í Þýska­landi tók Andreas Michelmann, for­seti þýska hand­knatt­leiks­sam­bandsins, af allan vafa varðandi framtíð Al­freðs í starfi.

„Við ákváðum á síðasta ári að fram­lengja samning okkar við Al­freð fram yfir Heims­meistaramótið 2027. Á þeim tíma var það bundið því skil­yrði að við myndum tryggja okkur sæti á Ólympíu­leikunum sem og við gerðum og það ræki­lega. Liðið vann til silfur­verð­launa á Ólympíu­leikunum og var það fram úr okkar mark­miðum. Það er engin ástæða fyrir þýska hand­knatt­leiks­sam­bandið að breyta einu eða neinu í samningi Al­freðs.“

„Við erum ekki í prúðu­leikurunum. Ef allar helstu hand­boltaþjóðir heims færu í þjálfara­breytingar eftir að hafa ekki unnið til verð­launa þá væri þetta al­gjör hring­ekja.“

Forráða­menn þýska hand­knatt­leiks­sam­bandsins beri fullt traust til Al­freðs. Þýskaland verður á heimavelli á næsta heimsmeistaramóti árið 2027 og að öllu óbreyttu verður það Alfreð sem stýrir liðinu þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×