Enski boltinn

Markahrókur City varð fyrir kvenhatri og ras­isma

Sindri Sverrisson skrifar
Khadija Shaw á ferðinni í leiknum gegn Arsenal á sunnudaginn.
Khadija Shaw á ferðinni í leiknum gegn Arsenal á sunnudaginn. Getty

Manchester City hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að félaginu sé „ofboðið“ vegna þess níðs sem markamaskínan Khadija Shaw mátti þola eftir að City tapaði gegn Arsenal á sunnudaginn í ensku ofurdeildinni í fótbolta.

Hin jamaíska Shaw, sem er 28 ára gömul, varð fyrir bæði kynþáttahatri og kvenhatri eftir leikinn við Arsenal, sem var hennar hundraðasti leikur fyrir City en hún kom inn á sem varamaður í 4-3 tapi á heimavelli.

Shaw, sem hefur skorað 86 mörk fyrir City og verið valin leikmaður ársins hjá félaginu tvö ár í röð, ákvað að deila ekki skjáskotum af þeim viðbjóðslegu skilaboðum sem hún hefur fengið send. Hún vill einfaldlega ekki veita þeim sem skilaboðin sendu neina athygli.

Í yfirlýsingu frá City segir að skilaboðin hafi hins vegar verið send til lögreglu og að málið verði rannsakað.

„Mismunun af hvaða tagi sem er, innan vallar eða á netinu, verður aldrei liðin og á ekki heima neins staðar,“ segir í yfirlýsingunni og einnig:

„Bunny [gælunafn Shaw] hefur ákveðið að deila skilaboðunum ekki opinberlega til þess að forðast að veita þeim grimmu einstaklingum sem þau sendu athygli. Rannsókn verður sett af stað og félagið mun veita Bunny fullan stuðning eftir þann viðbjóð sem hún hefur þurft að þola.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×