Enski boltinn

Risa­vaxið verk­efni Arsenal í norðrinu: „Leggjum allt undir“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá fyrri leik liðanna á Emirates leikvanginum
Frá fyrri leik liðanna á Emirates leikvanginum Vísir/Getty

Skytturnar hans Mikel Arteta í liði Arsenal þurfa að taka á honum stóra sínum í kvöld þegar að liðið heimsækir Newcastle United í seinni leik liðanna í undanúrslitaeinvígi enska deildarbikarsins. 

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu klukkan átta á Vodafone Sport rásinni en Newcastle United leiðir einvígið eftir 2-0 sigur í fyrri leiknum á Emirates leikvanginum eftir mörk frá Anthony Gordon og Alexander Isak. Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr fyrri leik liðanna:

Skytturnar ættu hins vegar að hafa mikla trú á sjálfum sér eftir 5-1 stórsigur á Manchester City í aðdraganda leiksins í ensku úrvalsdeildinni. 

Það er hins vegar risavaxin áskorun að halda til Norður-Englands á St. James' Park og þurfa þar að vinna upp tveggja marka forystu heimamanna. 

Arsenal hefur ekki unnið enska deildarbikarinn síðan árið 1993. 

„Tilfinningin sem við fundum eftir Manchester City leikinn, sem og leið okkar að þeim sigri gefur okkur skriðþunga sem við hyggjumst nýta í þessum leik. Það er tími til kominn að stíga á bensíngjöfina og leggja allt undir,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal á blaðamannafundi fyrir leik. 

Newcastle United vill í ár reyna bæta upp fyrir vonbrigðin árið 2022 þegar að liðið fór alla leið í úrslitaleik enska deildarbikarsins en laut þar í lægra haldi gegn Manchester United. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×