Fótbolti

Farinn að sakna lands­liðsins eftir nokkurra ára fjar­veru

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón Daði þegar hann var kynntur hjá Burton Albion.
Jón Daði þegar hann var kynntur hjá Burton Albion. Mynd: Burton Albion

Jón Daði skoraði fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum fyrir Burton og hefur hreinlega slegið í gegn.

Þegar Jón Daði kom til Burton var liðið í neðsta sæti, ellefu stigum frá öruggu sæti, en nú er liðið komið upp fyrir þrjú lið og situr í 21. sæti, fimm stigum frá næsta örugga sæti. Jón kom til félagsins frá Wreham.

„Ég sá fram á það að ég myndi frá mínútur þarna og njóta þess að spila fótbolta aftur, það var svona það sem var á bak við það að koma hingað,“ segir Jón Daði í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Þetta er búið að byrja frábærlega hingað til. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var ég ekkert sérlega spenntur til að byrja með þar sem við erum í fallbaráttu í deildinni. Ég var með mjög miklar efasemdir en stundum þarf maður að taka áhættur og stökkva á eitthvað. Svo er þetta búið að vera miklu betra en ég átti von á og svo er maður bara að spila og það skiptir máli.“

Íslendingar eigendur 

Í eigendahópi Burton eru alls sex Íslendingar. Þar á meðal eru hjónin Ólafur Páll Snorrason, fyrrverandi knattspyrnumaður, og Hrafnhildur Eymundsdóttir sem var einnig knattspyrnukona. Jón segist hafa heyrt í Ólafi þegar hann skrifað undir það hafi verið mjög gott samtal.

„Hann var virkilega flottur enda fyrrverandi fótboltamaður sjálfur og veit hvernig þetta virkar.“

Jón telur sig eiga erindi í íslenska landsliðið í knattspyrnu en liðið leikur mikilvæga umspilsleiki við Kósóvó í mars.

„Ég er alltaf vongóður um að fá kallið sérstaklega þar sem ég er að spila í ágætlega sterkri deild og er að skora mörk og gera ágætis hluti. Maður fær bara kallið ef maður stendur sig. Ég er ekki búinn að vera í landsliðinu núna í einhver ár og maður er klárlega farinn að sakna þess. Ég tel mig eiga að vera þarna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×