Innlent

Skýr af­staða Fram­sóknar hafi komið á ó­vart

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er oddviti Viðreisnar í borginni.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er oddviti Viðreisnar í borginni. Vísir/Vilhelm

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir að allir viti hvernig vikan hefur þróast í borgarstjórn, en það hafi komið henni á óvart að meirihlutinn skyldi ekki ná saman með það sem sameinar þau.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins sleit meirihlutasamstarfinu á fundi með oddvitum meirihlutans í borginni á áttunda tímanum. Einar sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að það hrikti í meirihlutanum vegna flugvallarins í Vatnsmýri.

„Afstaða Pírata, Samfylkingar og að einhverju leyti Viðreisnar líka, hefur verið alveg skýr og þau vilja flugvöllinn burt. Við höfum ekki verið þar,“ sagði Einar.

Flugvöllurinn verði í Vatnsmýri í náinni framtíð

Þórdís segir að hún hafi ekki verið í neinum þreifingum um myndun nýs meirihluta enn sem komið er. Nú þurfi að byrja tala saman.

„Það eru margar leiðir til að mynda meirihluta. Við í Viðreisn höfum alltaf sagst geta unnið með öllum flokkum,“ segir hún.

Þórdís segir að samkvæmt framtíðarsýn Viðreisnar verði flugvöllurinn ekki í Vatnsmýrinni, en hann verði þar þangað til ný og heppileg staðsetning finnst.

„Það hefur ekkert breyst hjá okkur í Viðreisn með það, þannig við vitum núna að Hvassahraun er ekki á borðinu, þannig að flugvöllurinn er ekki að fara núna. Það er alveg augljóst að flugvöllurinn er að fara vera þarna framyfir 2040,“ segir Þórdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×