Það var á miðvikudag sem Sigurjón Þórðarson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Flokks fólksins sagðist vilja endurskoða ríkisstyrki til Morgunblaðsins í kjölfar umfjöllunar blaðsins um ranga skráningu Flokks fólksins og framgöngu formannsins.
Ummæli Sigurjóns hafa vakið hörð viðbrögð og sagðist formaður Blaðamannafélagsins í viðtali við Vísi sama dag, æfur vegna málsins.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar-, og háskólaráðherra segist líta ummæli Sigurjóns alvarlegum augum.
„Ég lít það alvarlegum augum og ekki heppilegt í þessu samhengi. Fjölmiðlar eiga að vera gagnrýnir, þeir eiga að vera beittir og eiga ekki að þurfa að sitja undir því að stjórnmálafólk hóti þeim.“
Áform hans snúi að því að tryggja áframhaldandi styrki til einkarekinna fjölmiðla til eins árs. Í framhaldinu verði lögð fram fjölmiðlastefna og heildstæð löggjöf með það að markmiði að styrkja við mikilvægt hlutverk fjölmiðla.
„Svo þarf bara að skoða með hvaða hætti getum við tryggt að sem fjölbreyttasti hluti fjölmiðlanna fái styrki og geti dafnað. Svo höfum við miklu stærri áform. Er þetta styrkjafyrirkomulag heppilegt eins og það er? Ég er ekki viss um það, það er hægt að fara aðrar leiðir í því. Framtíð RÚV verður alveg skoðuð í því samhengi líka.“