Innlent

Gos geti hafist hve­nær sem er

Samúel Karl Ólason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Frá eldgosinu í janúar.
Frá eldgosinu í janúar. Vísir/Vilhelm

Áfram er hætta á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni þar sem landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Talið er að tímabilið þar sem hættan á eldgosi eykst geti staðið yfir í allt að mánuð eða jafnvel lengur.

„Það er svona langlíklegast miðað við okkar líkön að það gjósi í mánuðinum en það hefur bara sýnt sig að hegðunin er ekki alltaf eins í þessu kerfi og það gæti þurft að bíða lengur,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.

„Það verður bara að koma í ljós en við erum komin um það bil jafn mikið magn af kviku í kvikuhólfið undir Svartsengi eins og var í því fyrir síðasta gos og þar af leiðandi gerum við ráð fyrir því að gos geti hafist í rauninni hvenær sem er.“

Samkvæmt uppfærðu stöðumati hjá Veðurstofu Íslands sýna GPS-mælingar enn landris en lítillega hefur dregið úr hraða þess síðustu vikur. Talið er að magn kviku sé komið í neðri mörk þess rúmmáls sem talið er að þurfi til að koma af stað næsta kvikuhlaupi og eldgosi.

Meira en vika er síðan þessi neðri mörk náðust.

Sjá einnig: Aukin hætta á gosi gæti varað í nokkrar vikur

„Síðustu atburðir á Sundhnúksgígaröðinni hafa leitt í ljós að eftir að rúmmál kviku nær neðri mörkum hafa eldgos byrjað frá nokkrum dögum upp í fjórar vikur frá þeim tíma. Þetta þýðir þó ekki að það sé öruggt að næsti atburður hefjist innan mánaðar, heldur sýnir reynslan að það sé líklegasta sviðsmyndin,“ segir á vef Veðurstofunnar.


Tengdar fréttir

Vont veður geti stytt tíma til rýmingar

Skertur viðbragðstími veðurstofu og styttri tími til rýminga er eitthvað sem hafa þarf í huga þegar dvalið er í Grindavík í vondu veðri, að sögn veðurfræðings. Enn aukast líkur á eldgosi á Reykjanesskaga.

Lýsa yfir hættustigi vegna yfirvofandi eldgoss

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi vegna vaxandi líkna á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesi. Síðasta eldgosi lauk þar þann 9. desember en það var sjöunda eldgosið á svæðinu og síðan þá hefur kvika safnast saman aftur undir Svartsengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×