Íslenski boltinn

Víkingar hættir í Lengjubikarnum

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar spila ekki fleiri leiki í Lengjubikarnum í vetur en hafa um nóg annað að hugsa.
Víkingar spila ekki fleiri leiki í Lengjubikarnum í vetur en hafa um nóg annað að hugsa. vísir/Anton

Víkingur Reykjavík hefur kosið að draga lið sitt úr keppni í Lengjubikar karla í fótbolta, eftir að hafa spilað einn leik í keppninni.

Víkingur vann HK 2-0 í fyrsta leik sínum í Lengjubikarnum, með mörkum frá Daníel Hafteinssyni og Danijel Dejan Djuric. Nú hefur félagið hins vegar dregið lið sitt úr keppni og því falla úrslitin í leiknum niður og eftir standa fimm lið í 3. riðli A-deildar, í stað sex áður.

Frá þessu er greint á vef KSÍ en ekki kemur fram hver ástæðan er fyrir ákvörðun Víkinga. Þeir voru með á Reykjavíkurmótinu en tefldu þar ítrekað fram ólöglegum leikmanni og hluti sektir frá KSÍ. Félagaskiptaglugginn opnaðist hins vegar 5. febrúar og því gátu Víkingar teflt fram þeim leikmönnum sem þeir vildu í fyrsta leik Lengjubikarsins.

Víkingar standa hins vegar í ströngu á allt öðrum vígstöðvum þessa dagana því þeir eru staddir í Helsinki og taka þar á móti gríska liðinu Panathinaikos á morgun í fyrri leik einvígis liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.

Seinni leikur Víkings og Panathinaikos verður í Aþenu eftir rúma viku og koma Víkingar ekki heim í millitíðinni.

Komist Víkingar áfram í Evrópukeppninni mæta þeir Fiorentina eða Rapid Vín 6. og 13. mars. Falli þeir úr keppni gegn Panathinaikos verður næsti alvöru leikur þeirra hins vegar ekki fyrr en 7. apríl, þegar þeir mæta ÍBV í fyrstu umferð Bestu deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×