Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá flugvél Mýflugs koma í aðflugi yfir Tjörnina í áætlunarflugi frá Hornafirði í morgun í sterkum austanstrekkingi þvert á flugbraut. Flugmennirnir þurfa að sveigja nefinu upp í vindinn til að fylgja stefnu norður/suður flugbrautarinnar. Þegar þeir koma yfir brautina mætir þeim einnig mikil ókyrrð.
„Þetta eru bara mjög krefjandi aðstæður fyrir áhafnirnar sem eru að fljúga við þessar aðstæður, sem er eiginlega sorglegt,“ segir Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair.

„Þetta er af mannavöldum sem við erum að lenda í þessum aðstæðum í dag. Við erum með aðra braut sem er lokuð í dag sem er beint upp í vindinn og væru kjöraðstæður til þess að nota þá braut.
En svo er bara alveg ný staða í þessari sterku austanátt. Það eru byggingarnar sem eru hérna, Valsbyggingarnar, eða Hlíðarendabyggingarnar. Þær eru að skapa bara alveg nýja stöðu sem við höfum ekki þekkt áður. Í þessum sterku austanáttum, eins og er núna, þá er bara töluvert mikil ókyrrð alveg niður í braut út af þeim,“ segir flugrekstrarstjórinn.

Ekkert sjúkraflug hefur verið í dag en í frétt Stöðvar 2 sést einnig flugvél Norlandair að koma inn til lendingar síðdegis í áætlunarflugi frá Húsavík. En hvernig skyldi farþegum líða um borð við þessar aðstæður?
„Við vitum það að margir eru flughræddir og óttast þegar flugvélin fer að hristast. En í sjálfu sér, það er engin hætta, þannig lagað séð, á ferðum. Þetta eru óþægindi.
En þetta er bara alveg fáránlegt að við skulum vera sett í þessa stöðu.“

Norlandair-menn telja sig ekki geta búið við þetta ástand. Þeir hafa sótt um undanþágu fyrir sjúkraflugið til Samgöngustofu til að fá að nota austur/vestur flugbrautina.
„Við einfaldlega bara verðum að fá að komast hérna inn á þessar brautir. Það er ekkert flókið,“ segir Tómas Dagur.
Það þótti lán í óláni að brautirnar voru þurrar í dag. Ef þær hefðu verið blautar hefðu bremsuskilyrði verið mun verri. Flugrekstrarstjórinn segir þurra braut bestu yfirborðsskilyrðin og það hafi ráðið úrslitum um að flugvöllurinn taldist fær í dag.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: