Bentaleb fór í hjartastopp í júní í fyrra og í kjölfarið var óttast að hann þyrfti að leggja skóna á hilluna. Græddur var gangráður í Bentaleb í aðgerð sem hann gekkst undir eftir að hafa farið í hjartastoppið.
Á miðvikudaginn fékk Alsíringurinn leyfi frá franska knattspyrnusambandinu til snúa aftur á völlinn og í gær spilaði sinn fyrsta leik eftir hjartastoppið.
Bentaleb kom inn á sem varamaður í leik Lille gegn Rennes í frönsku úrvalsdeildinni og var aðeins fjórar mínútur að koma gestunum yfir, 0-1. Chuba Akpom bætti öðru marki við skömmu seinna og gulltryggði sigur Lille.
Endurkoma Bentalebs var samt aðalmálið og eftir leikinn sagði knattspyrnustjóri Lille að hún ætti heima á hvíta tjaldinu.
„Þetta á skilið að vera í bíómynd. Hann á þetta skilið því ég trúi ekki á heppni. Hann trúði á sjálfan sig. Þetta er stórkostlegt, yndisleg saga,“ sagði Bruno Genesio, stjóri Lille.
„Mark Nabils kom okkur í góða stöðu. Það er erfitt að lýsa því. Þetta gæti verið augnablik sem verður greypt í sögu félagsins, þessa tímabils og huga Nabils, að sjálfsögðu.“
Bentaleb gekk í raðir Lille frá Angers fyrir tveimur árum. Hann lék áður með Tottenham, Schalke og Newcastle United.
Hákon var í byrjunarliði Lille í leiknum í gær og lék fyrstu 68 mínúturnar. Lille er í 5. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar með 38 stig eftir 22 leiki.