Lífið

Norah Jones með sumartónleika í Hörpu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Norah Jones landaði enn einum Grammy-verðlaununum í Los Angeles í byrjun febrúar.
Norah Jones landaði enn einum Grammy-verðlaununum í Los Angeles í byrjun febrúar. Getty Images/Monica Schipper

Grammy-verðlaunahafinn margfaldi Norah Jones heldur tónleika í Eldborgarsal Hörpu fimmtudaginn 3. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tónleik ehf. 

Norah Jones kom fyrst fram á sjónarsviðið með plötunni Come Away With Me árið 2002, sem hún lýsti sjálf sem „lítilli, notalegri plötu”. Hún vann hug og hjörtu heimsins með sinni einstöku rödd og fékk meðal annars Grammy-verðlaun árið 2003 fyrir bestu plötu ársins, fyrir lag ársins og eins verðlaun sem besti nýi listamaðurinn. 

Come away hefur selst í tæpum 30 milljónum eintaka og er ein söluhæsta plata allra tíma. Síðan þá hefur Norah Jones unnið tíu Grammy-verðlaun (nú síðast fyrir nýju plötuna VISONS) og tilnefnd 20 sinnum. Hún hefur selt meira en 53 milljónir platna og lög hennar hafa verið streymt tíu milljarða sinnum um heim allan.

Hún hefur gefið út fjöldann allan af frábærum og vinsælum sólóplötum — Feels Like Home (2004), Not Too Late (2007), The Fall (2009), Little Broken Hearts (2012), Day Breaks (2016), Pick Me Up Off The Floor (2020), tónleikaútgáfan ‘Til We Meet Again (2021), jólaplötuna I Dream Of Christmas (2021) og Visions (2024).

Árið 2022 stofnaði Jones sitt eigið hlaðvarp, Norah Jones Is Playing Along, þar sem hún spjallar á skemmtilegu nótunum við uppáhaldstónlistamenn sína. Þá hefur hún verið í nokkru samstarfi við tónlistarkonuna Laufeyju undanfarin ár. Miðasala hefst föstudaginn 21. febrúar.

Norah Jones hefur áður haldið tónleika á Íslandi en hún kom til landsins í september 2007.


Tengdar fréttir

Norah Jones deildi visku sinni með Laufeyju

„Ég hitti guð í dag,“ skrifaði tónlistarkonan Laufey við Instagram færslu hjá sér undir mynd af henni og tónlistargyðjunni Noruh Jones. Þær stöllur höfðu verið að spila á sömu tónlistarhátíð í Belgíu og áttu að sögn Laufeyjar góðar samræður eftir tónleikana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.