Gestirnir frá Brentford voru í miklu stuði og gerðu í raun út um leikinn á fyrsta hálftímanum, með þremur mörkum.
Daninn Mikkel Damsgaard lagði upp fyrstu tvö mörkin og er kominn með tíu stoðsendingar en aðeins Mohamed Salah er með fleiri í deildinni, eða fimmtán.
Fyrri sending Damsgaard var undraverð, á Yoane Wissa sem skoraði af stuttu færi. Damsgaard átti svo aftur sendingu tíu mínútum síðar á Bryan Mbeumo sem skoraði.
Kamerúninn Mbeumo átti svo aukaspyrnu skömmu síðar og Christian Nörgaard skoraði með skalla.
Fjórða markið kom svo undir lokin þegar Fábio Carvalho fylgdi á eftir skoti Mbeumo.
Brentford er því komið í 10. sæti deildarinnar, með 37 stig líkt og Brighton sem á leik til góða. Leicester situr í 19. sæti með 17 stig en þó aðeins tveimur stigum á eftir Wolves sem er í 17. sæti, næsta örugga sæti.