Fótbolti

Góðir útisigrar hjá PSG og Juventus

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dusan Vlahovic skoraði sigurmark Juventus í kvöld.
Dusan Vlahovic skoraði sigurmark Juventus í kvöld. Vísir/Getty

Stórlið PSG og Juventus unnu góða útisigra í leikjum kvöldsins í franska og ítalska boltanum. 

Lið PSG heimsótti Lyon á heimavöll þeirra síðarnefndu og úr varð spennandi leikur. Fyrri hálfleikur var markalaus en Achraf Hakimi og Ousmane Dembele skoruðu tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks og komu gestunum í PSG í góða stöðu.

Rayan Cherki minnkaði muninn fyrir heimamenn sjö mínútum fyrir leikslok en fimm mínútum síðar kom Hakimi PSG aftur í tveggja marka forystu með sínu öðru marki. Lyon minnkaði muninn á ný í 3-2 með marki Corentin Tolisso en lengra komust þeir ekki. 

Lokatölur 3-2 og PSG heldur öruggri forystu á toppi deildarinnar en liðið er þrettán stigum á undan Marseille sem er í öðru sæti.

Clinton Mata leikmaður Lyon lendir hér á stönginni þegar hann reynir að bjarga marki í leik Lyon og PSG í kvöld.Vísir/Getty

Á Ítaliu tók Cagliari á móti stórliði Juventus. Juventus hefur aðeins tapað einum deildarleik á tímabilinu en gert þrettán jafntefli og var fyrir leikinn ellefu stigum á eftir toppliði Inter.

Aðeins eitt mark var skorað í leiknum í dag. Það gerði Dusan Vlahovic fyrir Juventus strax á 12. mínútu leiksins. Juventus situr eftir sigurinn í 4. sæti deildarinnar en Cagliari er í 15. sæti og aðeins fjórum stigum frá fallsæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×