Íslenski boltinn

FH-ingar æfðu á grasi í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn FH höfðu greinilega mjög gaman að því að æfa á grasi í gær enda ennþá bara febrúar.
Leikmenn FH höfðu greinilega mjög gaman að því að æfa á grasi í gær enda ennþá bara febrúar. @fhingar

FH-ingar eru að undirbúa sig fyrir komandi keppnistímabil í Bestu deildinni í fótbolta sem hefst eftir rúman mánuð. FH-liðið þarf þó ekki að fljúga suður til Evrópu til að komast á grasvöll.

Á meðan hin liðin á Íslandi eru að æfa á gervigrasvöllum þá birti FH myndir af leikmönnum sínum að æfa á grasvelli í gær.

Ástæðan liggur í nýja hybrid-grasinu sem FH-ingar settu á æfingasvæðið sitt í Kaplakrika. Flest stórlið heims spila á slíkum völlum. Hér á landi er FH brautryðjandi en grasið var fyrst lagt fyrir haustið 2023.

Það fór fyrst á æfingavöllinn en FH-ingar hafa einnig talað um það að setja það í framtíðinni á aðalvöll FH.

Blandaða grasið þolir tvöfalt meira álag en venjulegt gras. Það er 95 prósent venjulegt gras en fimm prósent styrkt með gervigrasþráðum. Hitalagnir liggja þar undir og vonir eru bundnar við að með tímanum haldist það grænt og nothæft allan ársins hring.

Það var alveg fagurgrænt þegar meistaraflokks menn FH æfðu þar í gær.

„Við teljum alveg hægt að vera hérna grassins vegna, þess vegna allt árið. En út af því að við erum úti og veður eru válynd yfir háveturinn þá erum við að tala um að vera hérna fram í miðjan nóvember og gefa þessu svo frí eitthvað fram á blávorið,“ sagði Jón Rúnar Halldórsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar FH og forystumaður í framkvæmdunum, í viðtali við Vísi síðasta haust.

„Ég er búinn að vera með þessa flugu í maganum síðan 2008 en þá var þetta bara svo dýrt. Þetta er orðið samkeppnishæft við gervigras þannig að við sáum tækifæri núna,“ sagði Jón í fyrrnefndi viðtali.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá æfingu FH á grasinu í gær. Það fylgir reyndar að sögunni að það fór að snjóa á höfuðborgarsvæðinu í gær og stuttu seinna var allt orðið hvítt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×