Enski boltinn

Ten Hag segir leik­menn í dag of við­kvæma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag stýrði Manchester United í 128 leikjum. Sjötíu þeirra unnust, 23 enduðu með jafntefli og 35 töpuðust.
Erik ten Hag stýrði Manchester United í 128 leikjum. Sjötíu þeirra unnust, 23 enduðu með jafntefli og 35 töpuðust. ap/dave thompson

Erik ten Hag, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, segir að leikmenn í dag eigi erfitt með að takast á við gagnrýni og séu viðkvæmari en menn voru þegar hann var að spila.

Ten Hag var rekinn frá United í október, þremur mánuðum eftir að hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Ten Hag stýrði United í rúm tvö ár og undir hans stjórn vann liðið ensku bikarkeppnina og deildabikarinn.

Í viðtali við SEG Stories ræddi Ten Hag um breytinguna sem hefur orðið á leikmönnum frá því hann var sjálfur að spila.

„Þessi kynslóð á vanalega erfitt með að takast á við gagnrýni. Hún nær til þeirra,“ sagði Hollendingurinn.

„Kynslóðin mín hafði miklu þykkari skráp. Þú gast verið ákveðnari. Þjálfarar nálguðust mig á beinskeyttari hátt. Ef ég myndi gera það við þennan hóp myndi það letja þá. Þeim finnst það móðgandi.“

Þegar Ten Hag stýrði United lenti hann meðal annars upp á kant við Cristiano Ronaldo og Jadon Sancho.

Ten Hag, sem stýrði Ajax áður en hann fór til United, kveðst ekki ætla að taka að sér nýtt starf fyrr en á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×