Handbolti

„Þetta var bara núna eða aldrei“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Birgir Steinn heldur út til Svíþjóðar í sumar og spilar næsta tímabil með sænsku meisturunum.
Birgir Steinn heldur út til Svíþjóðar í sumar og spilar næsta tímabil með sænsku meisturunum.

Handboltamaðurinn Birgir Steinn Jónsson fer frá Aftureldingu eftir tímabilið og heldur út í atvinnumennskuna í Svíþjóð þar sem hann ætlar sér stóra hluti.

Birgir hefur skrifað undir þriggja ára samning við sænsku meistarana í Sävehof. Þessi 25 ára vinstri skytta hefur verið einn allra besti leikmaður Olís-deildarinnar síðustu ár. Hann kom til Aftureldingar frá Gróttu sumarið 2023 en er uppalinn Stjörnumaður. Fyrir er einn Íslendingur í liði Sävehof en það er Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson.

„Þetta er mjög spennandi og flottur klúbbur og hafa verið með betri liðum í Svíþjóð undanfarin þrjú til fjögur ár. Þeir unnu deildina í fyrra og hafa verið að spila í Evrópudeildinni. Ég er bara virkilega spenntur fyrir komandi tímum,“ segir Birgir Steinn í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Þeir höfðu samband við í lok síðasta árs og sýndu mér áhuga. Það vatt upp á sig og ég tók einhvern fund með þeim og fór síðan út til þeirra í febrúar og skoðaði aðstæður og út frá því skrifaði ég undir.“

Margir leikmenn fara nokkrum áður fyrr út í atvinnumennskuna og stefnir Birgir samt sem áður langt.

„Ég er kannski ekki þessi dæmigerði leikmaður til að fara út. Þeir eru oftast um þremur árum yngri en ég. Þetta var í raun bara núna eða aldrei dæmi fyrir mig,“ segir Birgir en hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×