Enski boltinn

Unnið ensku, frönsku, þýsku og spænsku meistarana án þess að fá á sig mark

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool hefur unnið 33 af 44 leikjum sínum á tímabilinu.
Liverpool hefur unnið 33 af 44 leikjum sínum á tímabilinu. afp/FRANCK FIFE

Liverpool sigraði Paris Saint-Germain, 0-1, á útivelli í Meistaradeild Evrópu í gær. Rauði herinn hefur nú unnið ríkjandi meistara í fjórum af sterkustu deildum Evrópu á tímabilinu.

Liverpool hefur gengið allt í haginn á fyrsta tímabilinu undir stjórn Arnes Slot. Liðið er með þrettán stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, komið í úrslit deildabikarsins og í góðri stöðu til að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Strákarnir hans Slots hafa unnið marga góða sigra á tímabilinu og hafa meðal annars unnið ríkjandi meistara í Englandi, Frakklandi, Þýskalandi og Spáni, án þess að fá á sig mark.

Liverpool hefur unnið Manchester City í tvígang á tímabilinu, báða leikina með tveimur mörkum gegn engu.

Liverpool sigraði PSG í gær, 0-1, í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Í riðlakeppninni vann Liverpool svo Bayer Leverkusen, 4-0, og Real Madrid, 2-0.

Næsti leikur Liverpool er gegn botnliði ensku úrvalsdeildarinnar, Southampton, á laugardaginn. Á þriðjudaginn í næstu viku er svo komið að seinni leiknum gegn PSG.

Ef Liverpool slær PSG út mætir liðið sigurvegaranum úr rimmu Club Brugge og Aston Villa.


Tengdar fréttir

„Við vorum mikið betri en Liverpool“

Luis Enrique, stjóri PSG, sagði ekki flókið að greina leik liðsins gegn Liverpool í Meistaradeildinni í gærkvöld. Lið sitt hefði verið mikið betra, þó að leikurinn hefði endað 1-0 fyrir Liverpool.

Alisson: „Líklega besti leikur lífs míns“

Alisson Becker átti algjöran stórleik í kvöld þegar Liverpool sótti 1-0 sigur til Parísar í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Brasilíski markvörðurinn bjargaði Liverpool hvað eftir annað og liðið skoraði síðan sigurmarkið eftir langa sendingu fram völlinn frá Alisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×