„Ég er að klára mitt fimmta ár og ákvað eiginlega fyrir yfirstandandi tímabil að það yrði líklegast mitt síðasta,“ segir Gunnar í viðtali hjá Henry Birgi Gunnarssyni.
„Maður þarf að vita sinn tíma sem þjálfari. Hvað maður eigi að vera lengi á hverjum stað. Ég hef aldrei verið lengur en fimm ár hjá einu og sama liðinu. Ég fann það um áramótin að það var búið að ganga vel, tímabilið væri gott og að þetta væri góður tímapunktur til þess að fara í vor.“
Afturelding í góðum höndum
Tímasetningin á yfirlýsingunni, er einhver hugsun á bak við hana?
„Nei ég veit það ekki. Ég lét formanninn vita af því í byrjun janúar hvernig stæði hjá mér, hvað ég væri að hugsa sjálfur. Þeir fengu góðan tíma til að undirbúa það, vinna sína vinnu. Þeir eru búnir að ráða Stefán Árnason, minn aðstoðarmann og ég er náttúrulega bara mjög glaður með að liðið sé í góðum höndum, að hann taki við af mér. Það var kannski líka bara hluti af planinu þegar að Stefán kom inn. Að hann myndi taka við af mér og ég er ánægður með að það gangi eftir.“

Þú gefur Stefáni félaga þínum hæstu meðmæli?
„Já. Liðið er í góðum höndum. Hann á stóran þátt í þessu öllu með mér. Við vinnum vel saman og höfum gert síðustu ár. Ég treysti honum hundrað prósent í að taka við af mér. Er sannfærður um að Afturelding muni halda áfram sinni vegferð. Ég er stoltur af því hvernig þetta er búið að vera. Síðustu ár höfum við verið að berjast á toppnum um alla titla, höfum unnið titla, alið upp okkar eigin leikmenn og sent leikmenn út í atvinnumennskuna. Þetta mun bara halda áfram.“
Nú spyrja menn sig ertu að draga þig í hlé þarna eða ertu að hætta í þjálfun?
„Nei ég er ekki að hætta. En auðvitað er þetta bara ekkert stór markaður og það verður bara að koma í ljós hver framtíðin verður en nei ég er alls ekki að fara hætta. Hvort ég taki eitt ár í pásu verður bara að koma í ljós.“