Sport

Ólympíumeistari í taekwondo ætlar að verða heims­meistari í boxi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jade Jones vann gull í 57 kg flokki í taekwondo á Ólympíuleikunum 2012 og 2016.
Jade Jones vann gull í 57 kg flokki í taekwondo á Ólympíuleikunum 2012 og 2016. ap/Robert F. Bukaty

Jade Jones, tvöfaldur Ólympíumeistari í taekwondo, hefur ákveðið að venda kvæði sínu í kross og er byrjuð að æfa hnefaleika.

Jones hefur nú æft box í tvo mánuði undir handleiðslu hnefaleikakappans fyrrverandi, Stephens Smith, og stefnir hátt á nýju sviði.

„Þetta er stressandi. Stundum vakna ég og hugsa hvort ég sé algjörlega brjáluð,“ sagði Jones sem er 31 árs.

„Ég elska þetta. Ég elska taekwondo og það verður alltaf fyrsta ástin. En þetta er spennandi áskorun. Ég hef bara æft box í tvo mánuði.“

Jones segir að hugmyndin að byrja að boxa hafi komið til sín upp úr þurru.

„Ég veit ekki hvaðan þetta kom. Ég sat bara í eldhúsinu mínu og hugsaði að ég ætti að prófa box. Fjölskyldan heldur að ég sé klikkuð en fólk sem þekkir mig veit að þetta er mér í blóð borið. Ég elska að slást og fljúgast á,“ sagði Jones.

„Draumurinn er að verða heimsmeistari. Það yrði mjög svalt að vera heimsmeistari í tveimur íþróttagreinum.“

Hin velska Jones varð Ólympíumeistari í 57 kg flokki í taekwondo í London 2012, þá aðeins nítján ára. Hún endurtók svo leikinn í Ríó fjórum árum seinna. Jones vann hins vegar ekki til verðlauna í Tókýó 2020 og París 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×